Lífið er skattur og meiri skattur!!!

“Skattar hafa sprottið einsog gorkúlur á sorphaug á tíma lýðveldisins og væri ekki vanþörf á, að það sætti rækilegri skattahreinsun nú á hálfrar aldar afmæli sínu.” Þessi orð ritaði Gylfi Knudsen, starfsmaður hjá yfirskattanefnd, í grein sem hann skrifaði í afmælisrit Gauks Jörundssonar árið 1994. Þarna var hann að vísa til þess að það ætti nú að fara að fækka sköttum og gera þá einfaldari. Þessu er Steingrímur J Sigfússon ekki sammála og semur og semur nýja og nýja skatta einsog hann eigi lífið að leysa og ef hann finnur ekki nýja skatta, þá bara hækkar hann þá sem fyrir eru. Ég er nú eldri en tvævetur og man gríðarlega vel eftir einstaklega skemmtilegu atriði í Áramótaskaupinu 1989 um “Skattmann” sem núna situr sem þjóðhöfðingi vor, læt þetta atriði fylgja með. En þessi færsla er bara rituð vegna þess að ég var að koma úr skattarréttarprófi sem var gríðarlega hressandi.

[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=-qIfjVjLqpY]

Smámunasemi og tittlingaskítur!!!

Í sumar ákváðu stjórnvöld að allir ferðavagnar þyrftu að fara í skoðun á tveggja ára fresti. Ég fór því með fellihýsið mitt í skoðun í gær, beið litla hálfan fjórða tíma eftir skoðuninni, lagði mig til að mynda í rúman hálftíma og átti bara notalega stund á bílastæði Frumherja á Hesthálsi. Svo var gripurinn tekinn til skoðunar. Skoðunarmaðurinn tjáði mér að ég þyrfti að útbúa vagninn með þokuljós, gott og vel skil það alveg bara öryggisatriði. Einnig sagði hann að ég þyrfti fá mér rauða glitþríhyrninga á vagninn að aftan sem þyrfti að vera að tiltekinni stærð, einnig eru gul glitljós á vagninum að framan, skoðunarmaðurinn sagði það væri ekki leyfilegt að vera með gul glit að framan, þau ÞURFA að vera hvít. Hann sagði því að ég þyrfti annað hvort að skrapa glitið úr ljósinu og líma hvít glit á vagninn fyrir neðan ljósin og að kaupa mér hvít glit ljós í staðinn fyrir gulu glit ljósin. Ég fékk sem sagt endurskoðunarmiða og þarf að mæta aftur nú í október.

Í dag er ég enn sannfærðari um það að hversu miklir snillingar embættismenn í Brussel eru, hverju öðrum en þeim dettur slík snilld í hug…Engum. Kjósum JÁ við ESB.

Ding dog dei, ég skil ekki orð af því sem þú segir!!!

Eftir ríkisstjórnarfund í dag sátu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon fyrir svörum hjá blaðamönnum. Jóhanna var spurð að því hvort að hún hefði fengið einhver viðbrögð frá Bretum og Hollendingumum vegna fyrirvarana sem Alþingi gerði við ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans. Jóhanna upplýsti það að í lok síðasta mánaðar hefði hún skrifað Bretum og Hollendingum bréf vegna málsins en engin viðbrögð fengið við því. Ég verð nú að segja að það komi mér ekkert á óvart að Gordon Brown og Jan Peter Balkenende hafi ekki svarað bréfinu, þeir eru væntanlega enn að reyna að þýða bréfið af íslensku.

Að selja sálu sína!!!

Gunnar Lárus Hjálmarsson einnig þekktur sem “dr. Gunni” hefur um árabil verið mikill talsmaður neytenda og bent okkur neytendum á hvar má gera góð kaup, má segja að hann sé óopinber talsmaður neytenda. Hann hefur verið með neytendavakt í Fréttablaðinu þar sem hann bendir á hvernig má gera meira úr aurunum okkar. Gunnar fékk neytendaverðlaun Viðskiptaráðuneytisins í fyrra fyrir “stórmerkilegt einstaklingsframlag í neytendamálum”, eins og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Gunnar hefur skapað sér sess í hugum einstaklinga sem maður sem hægt er að treysta til að segja sér til um hvað er hagstætt og hvað ekki. Nú hefur Iceland Express ákveðið að nýta sér þetta traust og boðið dr. Gunna gull og græna skóga til að fá að nota ímynd neytendavarðarins til að auglýsa fyrirtækið. Með þessu finnst mér doktorinn hafa selt sálu sína og finnst erfiðara að treysta manninum eftirleiðs, það er erfitt að trúa fólki sem er á launaskrá hjá fyrirtæki og það segir að það fyrirtæki sé hagstæðara en annað, það finnst mér allavega.

Þetta var ekki leiðinlegt!!!

Held að Rooney hati Liverpool enn meira í dag en hann gerði í gær. :D

Tilgangslaust!!!

Í dag er 11. mars og það er 11. vika ársins 2009 og klukkan er 11:11.

Gaman að þessu.

Borgarahreyfingin!

Enn ein hreyfingin sem ætlar að bjóða fram sína krafta til að rétta landið við eftir efnahagshrunið síðastliðið haust. Borgarahreyfingin er með ýmsar athyglisverðar hugmyndir um hvað eigi að gera og hvernig það skuli framkvæmt, hér má sjá stefnuskrá hreyfingarinnar.

Best finnst mér þó þessi fyrirvari í lokin á stefnuskránni “Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð“.

Alltaf gaman að svona framboðum, sem koma til með að stela atkvæðum af flokkum einsog Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni Grænu framboði, því að þessi flokkur mun varla ná yfir 5% atkvæðamarkið á landsvísu og mun því skekkja niðurstöður kosninganna sem mun væntanlega verða hagstæð fyrir vikið og ekki verði hætta á að núverandi ríkisstjórn verði áfram við völd.

Helvítis Fokking Fokk!!!

Jafnrétti!!!

Í gær var skipað í nýja stjórn Nýja Kaupþings, í henni stitja nú;Gunnar Örn Kristjánsson formaður nefndarinnar, Auður Finnbogadóttir, Erna Bjarnadóttir, Helga Jónsdóttir og Drífa Sigfúsdóttir. Verð að taka það fram að ég hef ekki hugmynd um hvað fólk þetta er, en býst við því að þetta sé allt mjög hæft fólk til að gegna starfinu. Það var bara eitt sem stakk mig í augun þegar ég sá þessa nýju stjórn en það er kynjaskiptingin einungis 20% af stjórninni er(u) karlmenn(maður). Í verkefnaskrá minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segir; “Stjórnin byggir því á mjög aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum en mun jafnframt hafa í heiðri félagsleg gildi, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsi, jöfnuð og réttlæti.”  

Bæði Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafa þá stefnu að auka veg kvenna á vinnumarkaðinum og að jafna hlutfall milli kvenna og karla í atvinnulífinu, hvergi betra að byrja en í ríkisfyrirtækjunum ekki satt. En þá kemur þessi tilkynningu um nýja stjórn Nýja Kaupþings og stefnunar brotnar hjá báðum flokkum og ekki bara nóg með það heldur er líka til lagaákvæði í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en þar segir;

15. gr. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.
Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Finnst engum öðrum þetta líta út einsog kynjamisrétti, eða er það bara í lagi afþví að það er karlmaður í minnihluta???

Vil svo árétta það svona í endan að ég er ekki karlremba.

Eins málefna ríkisstjórnin!!!

Hvaða rugl er það að halda því fram að eina málið sem þarfnast umræðu á Alþingi séu skipulagsbreytingar í Seðlabankanum, svo hægt sé að koma einum einstaklingi úr embætti. Ég bara neita að trúa því að þessi blessaða Ríkisstjórn hafi ekkert annað fram að færa en það ætla að auka enn frekar við atvinnuleysisskrá landsmanna með því að koma Davíði Oddssyni frá völdum. Því þá má hún bara fara að pakka saman og koma sér heim það er ekki lausn á öllum okkar vandamálum.

Svo ætlar allt að keyra um koll vegna þess að Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknaflokksins, vill kynna sér málin betur um þetta nýja seðlabankafrumvarp áður en að hann er tilbúinn að afgreiða það úr Viðskiptanefnd, hann vill bíða eftir skýrslu sem von er á frá ESB sem hann telur að geti hugsanlega upplýst málið betur. Í 48. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir;

48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Höskuldur er því aðeins að fylgja sinni sanfæringu en ekki hópþrýstingi frá Jóhönnu og Steingrími. Þetta met ég mikils hjá Höskuldi að hann fylgi sinni sanfæringu og vilji taka vel ígrundaða ákvörðun í stað þess að stimpla bara frumvarpið og senda það áfram. Það er nú varla svo áríðandi að fjölga á atvinnuleysisskránni að það geti ekki beðið örfáa daga það nefnilega virðist ekki neitt annað bíða sem Ríkisstjórnin vill taka á.